Þvörusleikir er jólaórói Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 2021. Hönnunarteymið Arnar&Arnar hannaði óróann og Kristín Svava Tómasdóttir samdi kvæði um kappann. Þvörusleikir er síðastur í jólaóróaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra sem telur alls sextán óróa. Jólasveinarnir þrettán hafa verið færðir í stál ásamt Grýlu, Leppalúða og Jólakettinum. Markmiðið með gerð og sölu jólaóróanna er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna en allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til Æfingastöðvarinnar sem Styrktarfélagið á og rekur.