KÚLA MEÐ STROKU eftir Karin Sander er Kærleikskúla ársins 2022. Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til sumarbúða Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal. Sala Kærleikskúlunnar fer fram í völdum verslunum um land allt dagana 8. - 23. desember og í netverslun SLF. Kærleikskúlan er framleidd í takmörkuðu upplagi og kemur í fallegri gjafaöskju.
KÚLA MEÐ STROKU
Rauð pensilstroka svífur í trénu, málningarvottur á stökkri glerkúlu, liturinn ljómar og hreyfist, sem tákn um endapunkt ársins.
Karin Sander strýkur penslinum einu sinni ákveðið eftir gagnsærri Kærleikskúlunni. Verknaðurinn er skýr listræn athöfn þar sem þykk málningarstrokan situr eftir á sléttu, kúptu yfirborði kúlunnar, sjáanleg í þrívídd frá öllum hliðum, einnig gegnum íhvolfu hliðina. Strokan er tjásuleg í annan endann og afhjúpar þannig seigju málningarinnar og lýsir athöfn sem er í senn varfærin og röskleg. Liturinn sjálfur sker sig úr umhverfinu á áberandi hátt og verður tákn um aðgát og sjálfsígrundun.
Kúla með stroku er því hreyfanlegt, síbreytilegt málverk þar sem staðsetningin verður hluti af málverkinu sjálfu.
Karin Sander
Þýska listakonan Karin Sander (f. 1957) er einn fremsti og afkastamesti listamaður sinnar kynslóðar. Hún býr og starfar í Berlín og Zürich en hefur verið viðloðandi íslenskt listalíf síðan snemma á tíunda áratugnum. Í listsköpun sinni rýnir hún í tilbúnar aðstæður og rými út frá formgerðar-, félags- og sögulegu samhengi og gerir sýnileg á ólíka vegu með hjálp ýmissa miðla. Verk hennar hafa verið sýnd á einkasýningum og tvíæringum um allan heim og finnast í opinberum söfnum og safneignum víða um lönd. Hún hefur gegnt prófessorstöðu í arkitektúr og listum við ETH (Swiss Federal Institute of Technology) í Zürich síðan 2007. Sander verður, ásamt Philip Ursprung, fulltrúi Sviss á átjánda alþjóðlega arkitektúrtvíæringnum í Feneyjum 2023.
Kærleikskúlan er fallegur listmunur og skemmtileg til söfnunar en það sem gerir hana dýrmæta er innihaldið – kærleikurinn. Nafn kúlunnar er táknrænt en markmið með sölu hennar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna og allur ágóði rennur til starfsemi sumarbúðanna Reykjadal þar sem gleði, jákvæðni og ævintýri eru í fyrirrúmi.